„Réttur hafði milligöngu um að koma greiðslunni frá aðila til lögmanns Heiðars Más og það leiðir til þess, lögum samkvæmt, að krafan um að koma búinu í gjaldþrotaskipti nær ekki fram að ganga,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður og einn eigenda Réttar lögmannsstofu, í samtali við Viðskiptablaðið.

Greint var frá því á Vísi.is í hádeginu að gjaldþrotabeiðni Heiðars Más Guðjónssonar á hendur Glitni, sem fara átti fyrir héraðsdóm í dag, yrði ekki tekin fyrir þar sem búið væri að greiða upp kröfu hans á hendur slitabúinu að fullu . Heiðar Már sagði í samtali við Vísi að greiðslan fyrir kröfuna kæmi beint úr vasa erlendra kröfuhafa sem væru að reyna að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að koma í veg fyrir gjaldþrotaskipti föllnu bankanna.

Staðfestir ekki að kröfuhafi hafi greitt

Ragnar segir að erlendur aðili hafi haft samband við Rétt um að hafa milligöngu um greiðslu kröfunnar.

„Ég man nú bara ekki hvað hann heitir. Ég er ekki að staðfesta að þetta hafi verið erlendur kröfuhafi, en það var erlendur aðili sem óskaði eftir því að við hefðum milligöngu um að greiða þessa kröfu og það hefur þessi réttaráhrif sem ég nefni. Það er auðvitað augljóst að meirihluti kröfuhafa hefur mikla hagsmuni af því að fá sem mest út úr búinu og það minnkar ef búið fer í gjaldþrotaskipti,“ segir Ragnar.

Aðspurður hvort það geti verið einhver annar en kröfuhafi sem hafi hagsmuni af uppgreiðslu kröfunnar segir Ragnar: „Þetta getur verið makró ökonomisk spurning. Ef að öllum gömlu bönkunum yrði hleypt í gjaldþrotaskipti gæti það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir marga.“

Hagsmunir Heiðars óverulegir miðað við annarra

Heiðar Már sagði í samtali við Vísi að krafa hefði verið greidd rétt áður en héraðsdómur átti að taka fyrir gjaldþrotabeiðni hans. Ragnar neitar því að það hafi verið með ráðum gert að greiða kröfuna á síðustu stundu til að tefja fyrir framgangi málsins.

Spurður hvort honum þyki eðlilegt að komið hafi verið í veg fyrir að gjaldþrotabeiðni Heiðars yrði tekin fyrir með þessu hætti segir Ragnar: „Ef blaðamaður myndi kynna sér stöðu Heiðars myndi hann sjá að hagsmunir hans voru óverulegir miðað við hagsmuni hinna. Þess vegna telst varla sanngjarnt að hans hagsmunir hafi forgang fram yfir hagsmuni allra hinna.“