*

fimmtudagur, 19. júlí 2018
Innlent 24. ágúst 2017 11:47

FA hyggst kæra Reykjavíkurborg

Félag atvinnurekenda undirbýr málsókn vegna 24% aukningar fasteignagjalda á fyrirtæki. Tekið er fram í lögum að um sé að ræða þjónustugjald, ekki eignaskatt.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Félag atvinnurekenda hefur ítrekað bréflega áskorun sína til sveitarfélaga, þar sem aðildarfyrirtæki félagsins starfa, að þau lækki álagningarprósentu fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði til að mæta gífurlegum hækkunum fasteignamats á undanförnum árum.

Í bréfi, sem FA hefur sent forsvarsmönnum sveitarfélaga, er farið yfir hvernig tekjur þeirra af fasteignagjöldum fyrirtækja hafa hækkað undanfarin ár. Svo dæmi sé tekið hækkuðu tekjur Reykjavíkurborgar um 1,8 milljarða á árunum 2013-2016, eða um tæp 24%.

Þessar hækkanir eru gífurlega íþyngjandi fyrir fyrirtæki og er skorað á sveitarfélögin að taka mið af þessum veruleika við gerð fjárhagsáætlana fyrir næsta ár segir í frétt á vef Félags atvinnurekenda.

Í bréfi FA er rifjað upp að félagið skrifaði sveitarfélögum í nóvember síðastliðnum og fór fram á rökstuðning fyrir beitingu heimildar í lögum um tekjustofna sveitarfélaga til að leggja 25% álag á fasteignagjald. Sum sveitarfélög svöruðu ekki þeirri beiðni.

Í svörum þeirra sem brugðust við beiðni FA kom ekki fram neinn efnislegur rökstuðningur fyrir því að beita álagi á grunnprósentu fasteignagjalds á atvinnuhúsnæði, en hún er 1,32% af fasteignamati. Langflest sveitarfélög beita álaginu og innheimta 1,65% af fasteignamati.

Ekki vísað til neinna kostnaðarútreikninga

FA spurði einnig hvort kostnaðarútreikningar lægju að baki ákvörðun um að leggja 25% ofan á grunnprósentu fasteignagjaldsins. Í greinargerð með núgildandi lögum um tekjustofna sveitarfélaga kom fram að fasteignagjaldið ætti að vera endurgjald fyrir veitta þjónustu, en ekki eignarskattur.

Í svörum sveitarfélaganna er engu að síður ekki vísað til neinna kostnaðarútreikninga sem sýni fram á að beiting álagsins sé nauðsynleg vegna kostnaðar við að veita fyrirtækjum þjónustu.

„Við lítum á það sem sanngirnismál að sveitarfélögin endurskoði álagningarprósentu fasteignagjaldsins,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Gríðarlegar hækkanir á fasteignamati hafa leitt til þess að skattbyrði fyrirtækja hefur þyngst verulega, án þess að nokkuð hafi gerst í rekstri þeirra flestra sem auðveldar þeim að standa undir þeirri byrði.

Af og til á undanförnum árum hefur álagningarprósenta á íbúðarhúsnæði verið lækkuð til að mæta miklum hækkunum á fasteignamati. Það heyrir til algjörra undantekninga að fyrirtækin njóti slíkrar sanngirni.“
Fyrirtæki innan FA undirbúa nú málsókn gegn Reykjavíkurborg til að láta reyna á ýmis álitamál varðandi útreikning og álagningu fasteignagjalda.