FIFA, alþjóðaknattspyrnusambandið, hefur viðurkennt að hneykslið sem upp kom í vor, þegar sex háttsettir stjórnendur innan FIFA voru handteknir vegna gruns um spillingu, hafi fælt nýja styrktaraðila frá sambandinu. BBC News greinir frá þessu.

Sambandið hefur að undanförnu unnið að því að fá nýja styrktaraðila til liðs við sig fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem haldið verður í Rússlandi árið 2018. Það hefur hins vegar gengið illa og telja margir að FIFA hafi enn ekki gert nægilega hreint fyrir sínum dyrum.

Visa, sem er einn af lykilstyrktaraðilum FIFA, sagði nýlega að svo virtist sem knattspyrnusambandið gerði sér ekki grein fyrir alvarleika málsins og tæki því of léttvægt. Þá hafa Coca-Cola og McDonald's einnig lýst áhyggjum sínum vegna málsins.