*

laugardagur, 20. október 2018
Innlent 13. janúar 2018 15:09

Fíkniefni hríðfalla í verði

Verð á fíknefnum lækkaði um allt að fimmtung í fyrra og helming að raunvirði síðasta áratug.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Verð á algengustu fíkniefnunum lækkaði um allt að 20% á síðasta ári samkvæmt mánaðarlegri verðkönnun SÁÁ sem gerð er meðal innritaðra sjúklinga á Vogi. Raunvirði fíkniefna hefur farið lækkandi síðustu ár eða um allt að 50% síðastliðinn áratug.

SÁÁ bendir á að verðþróunin sé í takt við þróun á verði fíkniefna í Evrópu þar sem verð fíkniefna hafi farið lækkandi samhliða því að styrkleiki efnanna eykst. Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá því í október kemur fram að styrkleiki fíkniefna sé almennt meiri en áður.

Aukið framboð skýri lækkandi verð

Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að sennilegasta skýringin fyrir lækkandi verði fíkniefna sé aukið framboð. „Við höfum rekið okkur á að það er verið að flytja inn töluvert mikið af fíkniefnum,“ segir Grímur.

Hann efast um að aðgerðir íslenskra, pólskra og hollenskra lögregluyfirvalda í desember þar sem lagt var hald á fíkniefni sem áætla má að séu metin á allt að 400 milljónir króna muni hafa nokkur áhrif á verð á fíkniefnum. „Ég er ekki viss að það myndi sjást í verðlagningu,” segir Grímur. Í aðgerðunum var lagt hald á amfetamínbasa og MDMA. Lögreglan áætlar að úr því sé hægt að búa til á milli 50 og 80 kíló af amfetamíni og um 26 þúsund e-töflur.

Grímur segir sífellt algengara að amfetamínvökvi eða basi sé fluttur til landsins. Það taki töluvert minna pláss við innflutning. „Það er þá töluvert minna rúmmál sem þarf að fljóta um og er þá fullframleitt hér á landi. Það voru nokkur mál á síðasta ári þar sem við lögðum hald á basa.”

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.