*

laugardagur, 19. janúar 2019
Innlent 13. febrúar 2018 13:37

Fjármálastefnan byggð á óraunhæfri spá

Samtök iðnaðarins segja að uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða verði skuld næstu kynslóðar í umsögn um fjármálastefnu.

Ritstjórn
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Haraldur Guðjónsson

Fjármálastefna ríkisstjórnarinnar byggir á óraunhæfri efnahagsspá að mati Samtaka iðnaðarins en þetta kemur fram í umsögn samtakanna til Alþingis.

„Galli spárinnar er að líkanið sem hún er byggð á, byggir á þeirri forsendu að hagkerfið þróist skjótt í átt að áætluðum langtímahagvexti og stöðugleiki ríki. Spáin hvílir þannig á líkani sem gefur sér þá forsendu að Íslendingar muni upplifi mesta stöðugleika og jafnaðar hagvaxtarskeið sitt í sögunni á þessu tímabili.

Í þessu sambandi má minna á að hagvöxtur hér á landi hefur á síðustu tveim ur áratugum sveiflast á milli þess að vera 9,4% niður í að vera -6,5% og hagkerfið verið eitt sveiflukenndasta iðnríki heims á þeim tíma og raunar einnig þegar litið er til lengri tíma,“ segir í umsögninni.

Þá segir einnig að umfang hins opinbera sé of mikið og álögur óhóflegar. Skattheimta á íslensk fyrirtæki sé há í alþjóðlegum samanburði og sú næst hæsta á Norðurlöndum eftir Noregi.

Ennfremur að brýnt sé að forgangsraða í þágu innviða. „Það skýtur skökku við að leggja áherslu á sjálfbærni og ábyrgð gagnvart næstu kynslóð á sama tíma og skuldasöfnun vegna afskrifta í innviðum er eins mikil og raun ber vitni. Uppsöfnuð viðhaldsþörf verður þá skuld næstu kynslóðar.“

Að lokum segir að mat SI sé að meira upplýsandi hefði verið að byggja fjárhagsáætlunina á raunhæfari spá og birta útkomu m.v. sviðsmyndir um líklegar niðurstöður í efnahagsmálum á næstu árum. Þannig hefði verið hægt að móta grundvöll að umræðu um hvernig haga þyrfti opinberum fjármálum til að ná markmiðunum. „Einnig væri upplýsandi í því sambandi að í áætluninni væri umræða um það við hvaða aðstæður, ef einhverjar, væri réttlætanlegt að hverfa frá meginmarkmiðum stefnunnar.“