Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, áður Flugfélags Íslands, segir ekki í boði að endurnýja fluflotann með nýjum Fokker vélum þrátt fyrir að hafa reynst vel, enda fóru verksmiðjurnar á hausinn árið 1995.

Félagið skrifaði á síðasta ári undir samninga um sölu vélanna, og höfðu þrjár þegar verið farnar af landi brott en þessi síðasta sem bar einkennisstafina TF-JMS flaug loks af landi brott í gær. Flaug hún til Hollands, með millilendingu í Noregi að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

Þar með lýkur sögu Fokker véla hjá félaginu, en fyrsta Fokker 50 vélin var tekin í notkun árið 1992, en það var TF-FIR, sem hlaut nafnið Ásdís. Þar áður hafði félagið nýtt Fokker 27 vélar frá árinu 1965.

Traustar og áreiðanlegar vélar

„Þetta voru traustar og áreiðanlegar vélar sem sinntu sínu hlutverki mjög vel, fyrst Fokker 27 og síðan Fokker 50. Allan þann tíma sem þær voru í notkun reyndust þær okkur vel og það er því eftirsjá að þeim,“ segir Árni en í dag samanstendur flugfloti félagsins af Bombardier skrúfuþotum, það er G200 með 37 sæti, og Q400 með 72 til 76 sæti sem er töluvert hraðfleygari en gamli Fokkerinn að hans sögn.

„Þessar vélar hafa að mörgu leyti komið ágætlega út hjá okkur. Með Q400 höfum við breytt rekstrinum töluvert og náð að fjölga áfangastöðum. Þannig erum við t.a.m. komin með áfangastaði frá Keflavík til Aberdeen í Skotlandi og Belfast á Norður-Írlandi.“

Með styttri ferðatíma og stærri vélum hefur félagið sótt inn á nýja markaði, til að mynda hefur það bætt við flugi til Kangerlussuaq á Grænlandi auk þess sem nú sé heilsársflug á milli Keflavíkur og Akureyrar. Eina Fokker vélin sem nú er eftir á landinu er gamla eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, Fokker 27 smíðuð árið 1977, en hún er til sýnis á Flugsafni Íslands á Akureyri.