Lauf Forks fékk á dögunum viðurkenningu Vaxtarsprotans fyrir öran vöxt í veltu, en fyrirtækið var stofnað árið 2011 af þeim Benedikt Skúlasyni og Guðberg Björnssyni. Lauf Forks sérhæfir sig í framleiðslu á byltingarkenndum hjólagöfflum sem búa yfir svokallaðri blaðfjöðrun.

Áður en Lauf kom til sögunnar var einungis um tvær tegundir gaffla að ræða: annars vegar stífa gaffla með enga fjöðrun og hins vegar hefðbundna demparagaffla.

„Þetta er millistig sem hefur aldrei verið til áður á milli stífra ófjaðrandi gaffla og þungra og við- haldsfrekra demparagaffla. Við gefum í raun helming af venjulegri fjöðrun demparagaffla án þess að þyngja hjólið eða gera það flóknara í viðhaldi,“ segir Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri og annar stofnenda Lauf Forks. Stofnendurnir eru báðir miklir hjólamenn og hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði þegar Benedikt, sem er iðnaðarverkfræðingur að mennt, var starfsmaður Össurar.

„Við höfum alltaf hjólað mikið og ég var að vinna hjá Össuri á þessum tíma við hönnun gervifóta. Ég fór að tengja saman það sem maður sér í gervifótum og hvað væri mögulegt að gera í hjólum með sambærilegri hugsun.“

Nýjasti gaffallinn gæti slegið í gegn Eftir stofnun fyrirtækisins tók við tæplega þriggja ára þróunarvinna þar til fyrsti gaffallinn fór í sölu árið 2014. Ári síðar kom annar gaffall á markaðinn og nú á dögunum var sá nýjasti kynntur til sögunnar, en hann nefnist Lauf Grit. Benedikt segir að fyrstu tveir gafflarnir hafi hentað vel til að koma fyrirtækinu inn á markaðinn en sá nýjasti sé líklegur til enn frekari árangurs. Hann er núningsfrír og viðbragðsfljótur og svarar því litlum höggum einkar vel.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .