Freyr Friðriksson, eigandi KAPP ehf. véla-, kæli- og renniverkstæðis, hefur keypt Optimar Ísland ehf. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Optimar Ísland framleiðir, selur og þjónustar kæli-, frysti- og vinnslubúnað frá Optimar Stetter og Hayvard MMC í Noregi sem og ísþykknivélar og tengd kerfi.

„Optimar er mjög öflugt og vel rekið fyrirtæki á spennandi markaði sem tengist sjávarútvegi bæði til sjós og lands. Það eru klárlega mikil tækifæri framundan. Metnaður Optimar felst eins og áður í að bjóða traustan og áreiðanlegan búnað og tryggja öryggi og gæði á öllum kæli- og frystibúnaði sem við seljum. Félögin tvö, KAPP og Optimar, verða sameinuð á einhverjum tímapunkti sem mun þýða enn stærra og öflugra fyrirtæki á sviði véla- og verkstæðisþjónustu sem og í sölu á kæli- og frystikerfum. Fyrirtækið er ekkert án starfsfólkins og ég tel afar mikilvægt að það hafi ánægju af því að starfa áfram hjá Optimar eftir þessi eigendaskipti,” segir Freyr Friðriksson, nýr eigandi Optimar.

„Heilsufarsástæður hafa knúið mig til að gera þessar ráðstafanir og selja Optimar,“ segir Guðmundur Jón Matthíasson, sem verið hefur meirihlutaeigandi í fyrirtækinu síðan 2003 og starfað þar undanfarin 22 ár sem framkvæmdastjóri.

„Fyrirtækið á rætur sínar að rekja til ársins 1988 þegar það var stofnað undir móðurfélaginu KVÆRNER í Noregi en nafninu var breytt í Optimar Ísland árið 2000. Þetta hefur verið afar ánægjulegur tími og reksturinn hefur gengið mjög vel. Það er vissulega erfitt skref að yfirgefa fyrirtækið en ég er samt mjög ánægður að setja það í hendurnar á Frey og ég treysti honum vel til að stýra því áfram á réttri braut og óska honum og öllu starfsfólki heilla,“ segir Guðmundur Jón.