Friðrik Þór Snorrason forstjóri Reiknistofu bankanna (RB) hefur ákveðið að segja starfi sínu lausu. Hann mun starfa áfram hjá RB þar til nýr forstjóri hefur störf að því er fram kemur í tilkynningu frá RB. Því verði engin röskun á starfsemi RB vegna breytinganna.

Friðrik hefur verið forstjóri RB frá því í febrúar 2011 og hefur því verið forstjóri í tæp átta ár. RB hefur frá því á byrjun áttunda áratugarins veitt fjármálafyrirtækjum landsins fjölþætta tækni- og hugbúnaðarþjónustu og rekur öll megin greiðslukerfi landsins.

Í tilkynningu frá RB er haft eftir Friðriki að honum hafi fundist vera kominn tími á að breyta til og og horfa til nýrra verkefna. „Í fyrirtæki sem veitir fjármálakerfinu jafnmikilvæga þjónustu skiptir höfuðmáli að vandað sé til verka þegar kemur að breytingum á yfirstjórn og taldi ég því mikilvægt að upplýsa strax um ákvörðun mína þannig að ráða mætti nýjan forstjóra í góðu tómi. Það hefur verið mjög gefandi að fá að starfa með einstökum hópi starfsmanna sem ég mun kveðja með söknuði þegar ég lýk störfum. Á undanförnum árum höfum við tekist á við stór breytingaverkefni sem með góðri samvinnu við viðskiptavini hefur tekist með ágætum að sigla í höfn," segir Friðrik,

Sævar Freyr Þráinsson, stjórnarformaður RB og bæjarstjóri Akraness, segir eftirsjá að Friðriki. „Við búum vel að því að njóta starfskrafta hans þar til fundinn hefur verið eftirmaður til að fylla skarðið sem hann skilur eftir sig,“ segir Sævar Freyr.

Reiknistofa bankanna þróar og rekur fjármálalausnir, þar á meðal öll megin greiðslukerfi landsins. Hlutverk RB er að auka hagkvæmni í tæknirekstri íslenskra fjármálafyrirtækja en hjá RB starfa um 170 talsins.