Systurfélag Frumherja hf., Frumherji Invest, hefur eignast 85% hlut í Viking Redningstjeneste AS í Noregi, félagi sem einkum sinnir  bílaþjónustu og aðstoð á vegum úti að beiðni tryggingafélaga,  bílaumboða eða bíleigendanna sjálfra.

Viking er rúmlega tvisvar sinnum stærra félag en Frumherji, ef miðað er við veltutölur ársins 2006.  Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Þrír lykilstjórnendur Viking keyptu jafnframt 15% hlut í félaginu.  Viking Redningstjenese AS verður áfram sjálfstætt félag, rekið undir sama nafni.

Viking Redningstjeneste AS er um hálfrar aldar gamalt fyrirtæki. Höfuðstöðvar þess eru í Osló, þar sem eru um 50 starfsmenn. Um allan Noreg eru svo alls 156 þjónustustöðvar Viking, reknar á viðskiptaleyfum (franchise).

Orri Vignir Hlöðversson, framkvæmdastjóri Frumherja, segir í fréttatilkynningu að Viking sé  traust og vel rekið fyrirtæki með fjölda möguleika til að eflast enn frekar í framtíðinni. Jafnframt megi hugsa sér að tengja starfsemi Frumherja og Viking að einhverju leyti saman í framtíðinni.

Glitnir var ráðgjafi kaupenda og vann að  fjármögnun vegna kaupanna.

Síðastliðinn júní var tilkynnt um að eignarhaldsfélag í eigu Finns Ingólfssonar og fleiri fjárfesta hafi keypt allt hlutafé í fyrirtækjunum Frumherja hf. og Frumorku ehf. en seljandi var Óskar Eyjólfsson.