Ný skoðanakönnun MMR á fylgi stjórnmálaflokkanna sýnir að Píratar og Sjálfstæðisflokkur eru enn stærstir, en fylgi beggja flokka hefur minnkað eilítið frá síðustu könnun.

Mælast Píratar með 21,6% fylgi og Sjálfstæðisflokkur með 20,6%, en í síðustu könnun mældust báðir flokkarnir með sín hvor 22,7 prósentin í fylgi.

Fylgi við Viðreisn og Framsókn eykst og er fylgi þeirra nú jafnt

Fylgi Viðreisnar eykst um 3,5 prósentustig frá könnun sem var gerð 29. ágúst, og mælist fylgi flokksins nú 12,3%.

Einnig eykst fylgi Framsóknarflokksins milli kannana og mælist flokkurinn nú með 12,2% miðað 10,6% fylgi í fyrrnefndri könnun.

Vinstri græn missa fylgi en Björt framtíð bætir við sig

Fylgi Vinstri grænna hefur minnkað eilítið frá síðustu könnun og mælist það nú 11,5% borið saman við 12,4% frá því í lok ágúst.

Samfylkingin stendur nánast í stað með 9,3% fylgi en Björt framtíð mældist með 4,9% fylgi sem er hæsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með síðan í könnun sem lauk 20. maí á þessu ári. Í könnuninni sem lauk 29. ágúst var fylgi flokksins mælt 4,5%.