Eimskip og Samskip og félög þeim tengd gætu þurft að greiða allt að 8,5 milljarða króna í sektir verði fyrirtækin og stjórnendur þeirra uppvísir að brotum á samkeppnislögum. Sektirnir geta numið allt að 10% af heildarveltu fyrirtækjanna og stjórnendur sem fundnir eru sekir um þátttöku í ólögmætu samráði átt á hættu allt að sex ára fangelsisvist. Upphæðirnar hér miða við uppgjör Eimskips og Samskipa fyrir árin 2012 og 2011.

Fram kemur í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins að heimildir til húsleitar á starfstöðvum Eimskips og dótturfyrirtækisins  TVG Zimsen og Samskipa sé byggð á ætluðum brotum á 10. og 11. grein samkeppnislaga . Lögin kveða m.a. á um bann við samráði á markaði, s.s. með verð, afslætti, álagningu og misnotkun á markaði í ljósi markaðsráðandi stöðu.

Samkeppniseftirlitið segir á vef sínum þau fyrirtæki sem reynast hafa tekið þátt í ólögmætu samráði geta á grundvelli reglna sem eftirlitið hefur sett komist hjá sektum eða lækkað mögulegar sektir með því að vinna með Samkeppniseftirlitinu við að upplýsa málið.