Síðan reglugerð um skortsölu tók gildi 1. júlí síðastliðin er fjárfestingarfélagið Gamma Capital Management eina félagið sem Fjármálaeftirlitið hefur birt lögbundna tilkynningu frá um slíka stöðu, sem það hefur nú gert í tvígang.

Annars vegar tók félagið 10. ágúst síðastliðinn skortstöðu fyrir 0,93% af útgefnu hlutafé í N1 en þann 23. ágúst minnkaði félagið skortstöðu sína niður í 0,23% af útgefnu hlutafé. Þann dag birti félagið árshlutauppgjör 2. ársfjórðungs en eins og Viðskiptablaðið greindi frá á sínum tíma lækkaði gengi bréfa félagsins nokkuð í kjölfarið. Má því ætla að Gamma hafi grætt nokkuð á skortstöðunni, en ekki eins mikið og ef fjárfestingarfélagið hefði haldið upphaflegri stöðu sinni.

Reglugerðin er liður í reglugerðum Evrópusambandsins sem segja að skylt sé að tilkynna um skortstöðu ef hún er tekin í meira en 0,5% af útgefnu hlutafé viðkomandi hlutafélags eða ef farið er yfir eða undir þau mörk.