Fréttavefurinn Gawker mun loka í næstu viku, einungis örfáum dögum eftir að móðurfyrirtæki hans var keyptur af Univision.

Á vefnum kemur fram að stofnandinn Nick Denton hafi greint starfsmönnum frá fréttunum á fimmtudagskvöld, en fjölmiðlafyrirtækið Univision keypti Gawker Media á 135 milljónir dollara á gjaldþrotauppboði.

Gawker fór fram á gjaldþrotaskipti eftir að hafa verið dæmt til að greiða fyrrverandi fjölbragðaglímukappanum Hulk Hogan 140 milljónir dollara í skaðabætur fyrir birtingu kynlífsmyndbands af sér og eiginkonu vinar síns. Málsókn Hogan var fjármögnuð af Peter Thiel, einum stofnenda PayPal, sem vildi binda enda á „einelti“ vefsíðunnar eftir að hún ljóstraði upp samkynhneigð hans.

Óvíst er hvernig starfsemi Gawker verður háttað í framhaldinu. Síðan verður tekin niður í næstu viku en nýi eigandinn Univision, sem er stærsti spænskumælandi fjölmiðill Bandaríkjanna, hyggst einblína á aðrar vefsíður fyrirtækisins en láta Gawker.com leggjast af.