Hætt verður gjaldtöku við Hvalfjarðargöngin núna í haust, eða nánar tiltekið í september. Ríkið tekur þá við göngunum af Speli, en félagið hefur rekið göngin frá opnun þeirra. Speli verður svo slitið í kjölfarið. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Spölur hefur lagt fram ósk um að Ríkisendurskoðun fylgist með lokauppgjöri félagsins. Um 20.000 áskriftarsamningar eru alls í gildi milli Spalar og viðskiptavina um afsláttarferðir auk þess að í umferð eru um það bil 53.000 veglyklar.

Félagið ætlar að endurgreiða þá fjármuni sem viðskiptavinir munu eiga inni á áskriftarreikningum og afsláttarmiða í september.

Búist er við að Vegagerðin taki við rekstri ganganna en ekki er komið í ljós hvort gjaldtöku verði haldið áfram.