Gunnar H. Hall fjársýslustjóri lætur af embætti um næstu áramót og kemur til starfa í fjármála- og efnahagsráðuneyti. Kemur þetta fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Gunnar var skipaður ríkisbókari frá 1. janúar 1995. Árið 2002 varð hann Fjársýslustjóri, þegar Ríkisbókhald tók yfir verkefni Ríkisféhirðis og nafni stofnunarinnar var breytt í Fjársýslu ríkisins. Samkvæmt tilkynningunni mun hann koma til fjármála- og efnahagsráðuneytisins í byrjun næsta árs og mun vinna þar með teymi ráðuneytisins að innleiðingu væntanlegra laga um opinber fjármál, samkvæmt frumvarpi þar um, auk þess að sinna öðrum verkefnum.

Embætti fjársýslustjóra verður auglýst laust til umsóknar næstkomandi fimmtudag. Gert er ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra skipi í embættið til fimm ára frá 1. janúar 2016, að því er segir í tilkynningunni.