Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, skrifar í nýjasta rit Þjóðmála um lærdóm sem draga má af íslenska hruninu. Hann segir það vera athyglisvert að fæstir hafi dregið lærdóm af hruninu þrátt fyrir að um 10 ár séu liðin frá efnahagshruninu.

„Mikilvægasti lærdómur hrunsins var sá að ríkið á ekki að taka yfir skuldbindingar einkafyrirtækja. Álag á skuldir Íslands hækkaði gríðarlega þegar kynnt var að Glitnir yrði væntanlega tekinn yfir af íslenska ríkinu í september 2008. Sem betur fer varð ekkert úr því feigðarflani. Það var Íslandi til happs að Seðlabanki Íslands var ekki lánveitandi til þrautavara, hann hafði ekki aðgang að erlendum gjaldeyri og gat því ekki með nokkru móti komið bönkunum til bjargar. Eins var íslenska ríkið aðþrengt og hafði engin tök á að grípa inn í. Það var lán í óláni," segir í pistlinum.

Heiðar segir í pistlinum að Seðlabankinn og stjórnvöld hafi verið meðvirk með erlendu kröfuhöfunum í kjölfar hrunsins en að engin ástæða hafi gefið tilefni til þess að Íslendingar ættu að vera hnípnir eða litlir í sér í samskiptum við þá í ljósi þess að allir hafi tapað við efnahagsáfallið.

„Skömmin yfir efnahagsáfallinu og tapinu sem af því hlaust virtist draga íslensk stjórnvöld að þeirri niðurstöðu að semja um íslenska hagsmuni á forsendum kröfuhafa. Kaupa sig frá vandanum, nánast sama hvað það kostaði, og senda almenningi reikninginn. Þar liggur einmitt munurinn á einkarekstri og opinberum. Einkaaðilar geta ekki sent reikninginn annað, þeir hafa því beina hagsmuni af því að berjast fyrir hverri krónu, en aðalsamningamaður ríkisins í Icesave-málinu, Svavar Gestsson, leyfði sér hins vegar að klára samninga með þeim orðum að hann „var leiður á að hafa þetta hangandi yfir sér“ og nennti ekki meir."

Hann segir það vera athyglisvert að langstærsti hluti kröfuhafa hafi innleyst tap sitt á fyrstu tveimur árunum eftir hrun og hafi síðan horfið á braut.

„Í staðinn komu sérhæfðir fjárfestar sem keyptu kröfu sínar með allt að 95% afslætti og heimtuðu svo að kröfurnar yrðu greiddar að fullu. Stjórnvöld sýndu þessum aðilum allt of mikla linkind og fórnuðu í raun hagsmunum íslensks almennings í þágu hrægammasjóða sem sérhæfa sig í því að ryðjast inn í kreppur og krefjast þess að fá margfalt greitt fyrir fjárfestingu sína. Aldrei átti að ljá máls á því að réttindi kröfuhafa yrðu meiri en íslensks almennings og fyrirtækja en á árunum fram að nauðasamningum var þó talað á þennan veg. Forgangskröfur voru nefndar til sögunnar og látið í það skína að erlendir kröfuhafar ættu frekara tilkall til gjaldeyris landsins en þegnar þess. Það var auðvitað rakalaus þvæla."

Heiðar segir að við núverandi aðstæður sé þegar ferðaþjónustan standi höllum fæti sé mikilvægt að líta til þess að Ísland sé mjög vel statt efnahagslega.

„Lærum af sögunni. Lærum af hruninu á 10 ára afmæli þess. Treystum ekki á inngrip ríkisins. Förum að gildandi lögum og látum aga þeirra duga," segir Heiðar að lokum.