*

föstudagur, 22. mars 2019
Innlent 8. febrúar 2018 14:46

Hafa lánað 335 milljarða króna

Aukning lánveitinga lífeyrissjóðanna til sjóðfélaga nam 57% á síðasta ári og fór meðallánið upp fyrir 18 milljónir.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Á árinu 2017 lánuðu íslenskir lífeyrissjóðir tæplega 139 milljörðum króna til sjóðfélaga sinna, sem er um 57% aukning útlána frá árinu 2016 að því er Morgunblaðið greinir frá. Frá árinu 2015 hafa lánveitingarnar hins vegar fimmfaldast, en þá námu þær einungis 21,7 milljörðum króna að því er fram kemur í tölum Seðlabankans. 

Meðalupphæð lánanna hækkaði um 15,8% á síðasta ári, og fór það upp í 18,2 milljónir úr 15,7 milljónum. Um 70,6%, eða 97,6 milljarðar króna af lánum síðasta árs voru verðtryggðir, en 29,4% lánanna, eða 40,7 milljarðar voru óverðtryggð.

Ef skoðað er hve stór hluti lánveitinga síðasta árs voru hrein ný lán í stað þess að vera til uppgreiðslna á eldri lánum nema þau 92,9 milljörðum króna. Árið 2016 var hreina útlánaaukningin hins vegar 63 milljarðar króna en árið 2015 námu þau ekki nema 3,4 milljörðum.

Heildarútlán íslensku lífeyrissjóðanna um síðustu áramót námu svo ríflega 335 milljörðum króna, en það nemur um 8,6% af heildareignum sjóðanna sem er sama hlutfall útlána og í október árið 2010. Hlutfallið fór lægst í 5,2% í október og nóvember árið 2011, en hæst fór það á síðastliðnum áratug yfir 10% árið 2009.