*

mánudagur, 27. maí 2019
Innlent 13. nóvember 2018 19:17

Hafi borið að kæra Samherja

Seðlabankinn segir að áfrýjun vegna sektar á hendir Samherja til Hæstaréttar hafi byggt á óháðu lögfræðiáliti.

Ritstjórn
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Haraldur Guðjónsson

Starfsmenn Seðlabanka Íslands töldu að sér hafi borið lagaleg skylda til að kæra Samherja vegna gruns um brota á gjaldeyrislögum í apríl 2013 að því er segir í yfirlýsingu frá Seðlabankanum sem birt var nú fyrir skömmu. Í síðustu viku komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Seðlabankanum hafi verið óheimilt að sekta Samherja um 15 milljónir þar sem rannsóknin málsins hafi áður verið látið niður falla. Seðlabankinn segist ætla að fara yfir verklag vegna málsmeðferðar innan bankans í kjölfar dómsins vegna sambærilegra mála.

Eftir kæru Seðlabankans í apríl 2013, endursendi embætti sérstaks saksóknara málið til Seðlabankans 23. ágúst sama ár. Í samantekt Seðlabankans á málinu segir að það hafi verið þar sem þá hafi komið í ljós að lögaðilar gætu ekki borið refsiábyrgð á brotum á lögum og reglum um gjaldeyrismál. „Þessir annmarkar á lögunum, sem fyrst komu í ljós við meðferð þessa máls, höfðu víðtæk áhrif þar sem sambærilegir annmarkar voru á annarri löggjöf á fjármálamarkaði allt frá árinu 2007. Löggjafinn hefur nú lagfært umrædda annmarka,“ segir Seðlabankinn.

Í kjölfarið þess eða 9. september 2013, kærði Seðlabankinn fjóra einstaklinga, þar á meðal Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja persónulega til sérstaks saksóknara vegna sömu atriða og sérstakur saksóknari hafi vísað aftur til Seðlabankans. „Málið var til rannsóknar hjá embættinu í tvö ár og var síðan fellt niður sem sakamál og endursent bankanum hinn 4. september 2015 til meðferðar og ákvörðunar, þar sem eftir stóðu heimildir bankans til álagningar stjórnvaldssekta á hendur lögaðilum, að öðrum skilyrðum uppfylltum,“ segir Seðlabankinn.

Þá hafi embættið benti á annmarka sem urðu við setningu reglna nr. 1130/2008, um gjaldeyrismál í desember 2008, þar sem formlegt samþykki ráðherra hafi skort. Annmarkar hafi komið í ljós eftir að málið var kært í annað skiptið. „Seðlabankinn tók í kjölfarið málið til meðferðar og felldi niður mestan hluta þess hinn 30. mars 2016, m.a. vegna áðurnefndra annmarka við setningu reglna nr. 1130/2008. Bankinn tók lítinn hluta málsins, sem nú taldist minniháttar, til áframhaldandi stjórnsýslumeðferðar og ákvarðaði sekt hinn 1. september 2016 vegna brota á lögum og reglum um gjaldeyrismál um skilaskyldu erlends gjaldeyris. Það var meðal annars gert á grundvelli jafnræðissjónarmiða vegna annarra sambærilegra mála sem áður hafði verið lokið með stjórnvaldssekt,“ segir Seðlabankinn en þá var Samherji sektaður um 15 milljónir króna.

„Í niðurstöðu héraðsdóms sem Hæstiréttur staðfesti 8. þessa mánaðar kom fram að embætti sérstaks saksóknara hafi ekki talið efni til að vísa kærunni frá á grundvelli laga um meðferð sakamála og að af því mætti ráða að það væri ekki mat sérstaks saksóknara að efnisatriði kærunnar væru á engum rökum reist. Endursendi því sérstakur saksóknari málið í heild sinni til Seðlabankans til meðferðar og ákvörðunar með vísan til laga um gjaldeyrismál,“ segir í yfirlýsingu Seðlabankans.

Seðlabankinn hafi litið á meðferð málsins hjá Seðlabankanum og embætti sérstaks saksóknara sem samfellda og heildstæða þar sem sömu meintu brot hafi verið til rannsóknar. Það hafi verið í samræmi við lögfræðiálit sem bankinn aflaði og skýrslu Lagastofnunar Háskóla Íslands um úttekt á stjórnsýslu bankans við framkvæmd laga um gjaldeyrismál, sem laut m.a. að Samherjamálin. Því hafi bankinn talið rétt að fara fá Hæstarétti til að skera úr því hvort hægt hafi verið að líta svo á að málið hafi verið fellt niður.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim