Arion banki hagnaðist um 2,9 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2016. Hagnaðurinn er nokkru minni en á sama tíma árið á undan þegar hann nam 14,9 milljörðum króna. Arðsemi eigin fjár var 5,7% miðað við að hún var 35,1% á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársfjórðungsreikningi bankans sem birtur var í dag.

Hagnaður bankans af reglulegri starfsemi nam 2,6 milljörðum króna miðað við 4 milljarða á síðasta ári. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi nam þá 5,1% samanborið við 9,8% 2015 og lækkar einnig svo um munar. Eignir bankans námu 1.028 milljörðum króna og hafa aukist um 17 milljarða frá ársbyrjun.

Eigið hlutafé bankans hækkaði lítillega eða um 3 milljarða króna frá ársbyrjun og er nú 195 milljarðar króna.Eiginfjárhlutfall bankans í lok mars var 27,0% en var 24,2% í árslok 2015. Hlutfall eiginfjárþáttar A hækkaði og nam 26,2% samanborið við 23,4% í árslok 2015.

Bankinn greiddi 737 milljónir króna í tekjuskatt og aðrar 742 milljónir í sérstaka bankaskattinn. Þá námu laun og önnur tengd rekstrargjöld samtals rúmum 7 milljörðum króna.