*

laugardagur, 20. október 2018
Innlent 12. janúar 2018 10:40

Hagnaður Haga dregst saman

Félagið hagnaðist um 401 milljón króna á þriðja ársfjórðungi sem er lækkun um meira en helming frá fyrra ári.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Haga eftir skatta á þriðja ársfjórðungi nam 401 milljón króna og dregst saman um meira en helming frá fyrra ári þegar hann nam 874 milljónir króna. Á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins nam hagnaðurinn samanlagt 1.933 milljónum en 3.035 milljónum á sama tímabili í fyrra og er því um 36% lægri.

Vörusala hefur jafnframt dregist saman en á þriðja ársfjórðungi var hún um 16,9 milljarðar samanborið við tæplega 19 milljarða árið 2016. Þá jókst launakostnaður lítillega á milli ára.

Á fyrstu níu mánuðum ársins nam hagnaður 3,6% af veltu en framlegðin var um 24,8%. EBIDTA félagsins nam jafnframt 3.272 milljónum króna.

Í lok þriðja ársfjórðungs námu heildareignir félagsins 30.057 milljónum króna og drógust því saman um 52 milljónir á tímabilinu 28. febrúar til 30 nóvember. Eigið fé jókst þó um 998 milljónir á tímabilinu og skuldir drógust saman um 475 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall haga var því 61,3% samanborið við 57,8% í lok febrúar.

 Handbært fé félagsins nam 232 milljónum króna í lok tímabilsins og hefur því lækkað um 2.242 á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins.