Hagnaður Sláturfélags Suðurlands á fyrri árshelmingi árið 2015 nam 245. m.kr. samanborið við 255 m.kr. árið 2014. Tekjur á fyrri árshelmingi námu 5.712 m.kr. og minnka um 1% milli ára. Í lok júní var eigið fé Sláturfélagsins 4.206 m.kr. EBITDA afkoma lækkaði einnig milli ára frá 532 m.kr. á síðasta ári í 527 m.kr. á þessu ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SS.

Vöru- og umbúðanotkun var 3.307 m.kr. en 3.469 m.kr. árið áður. Launakostnaður hækkaði um tæp 5%, annar rekstrarkostnaður hækkaði um tæp 9% og afskriftir voru óbreyttar. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 370 m.kr., en 375 m.kr. árið áður. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 4 m.kr. en árið áður jákvæð um 14 m.kr.

Fjárfest var í varanlegum rekstarfjármunum á fyrri árshelmingi 2015 fyrir 288 m.kr. en 251 m.kr. á sama tímabili árið áður. Seldar voru eignir fyrir 3 m.kr. Á fyrri árshelmingi var m.a. fjárfest umtalsvert í nýjum vélbúnaði fyrir kjötvinnslu, auk endurbóta á húsnæði.

Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2015 var í aprílmánuði greiddur 11,0% arður af B-deild stofnsjóðs alls 20 m.kr. og reiknaðir 5% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 16 m.kr.