Tryggingafélagið VÍS hagnaðist um 145 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2016. Á sama tíma í fyrra nam hagnaður félagsins 733 milljónum króna. Afkoma félagsins var undir væntingum, segir Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri VÍS. Bókfærð iðgjöld voru 11% meiri en á sama tíma í fyrra en þrátt fyrir það varð tap af bæði frjálsum og lögboðnum ökutækjatryggingum á tímabilinu.

Eignir félagsins námu 51,7 milljarði króna að fyrsta ársfjórðungi loknum. Á sama tíma árið áður námu eignir þess 44,8 milljörðum króna. Þar af er eigið fé fyrirtækisins 15,6 milljarðar króna og skuldir þess 36 milljarðar króna. Það gefur eiginfjárhlutfall upp á rúmlega 30%.

Þó gekk fjárfestingastarfsemin að sögn Sigrúnar fremur vel en hún náði 2,2% ávöxtun eigna á tímabilinu. Tekjur af fjárfestingastarfsemi voru þá 435 milljónir króna en voru 1,1 milljarður króna í fyrra. Liður í þeim samdrætti er að gengistap varð af erlendum eignum félagsins, en það hefur dregið úr erlendri eign sinni.

Samsett hlutfall fyrirtækisins dróst saman á tímabilinu milli ára. Nú var það 104,5% en í fyrra var það 105,2%. Í febrúar gaf fyrirtækið út víkjandi skuldabréf fyrir tvo milljarða króna. Tveggja milljarða króna arður var svo greiddur út úr félaginu til hluthafa í apríl síðastliðinn.