*

þriðjudagur, 24. október 2017
Erlent 1. febrúar 2017 19:30

Halda stýrivöxtum óbreyttum

Bandaríski seðlabankinn heldur stýrivöxtum óbreyttum, en stefnir þó að því að hækka vexti á árinu.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Peningastefnunefnd bandaríska seðlabankans hefur tekið ákvörðun um að halda stýrivöxtum óbreyttum að sinni. Nefndin hefur fundað síðustu daga og kynnti vaxtaákvörðunina í dag.

Nefndin er þó með það á stefnuskrá sinni að hækka stýrivexti hægt og bítandi á næstu misserum. Líklegt þykir að seðlabankinn vilji bíða og sjá hvað Donald Trump og hans menn muni gera við ríkisfjármálin.

Forsetinn hefur boðað umtalsverðar innviðafjárfestingar og því gæti það leitt til þess að Seðlabankinn muni hækka vexti hraðar en ella, til þess að tempra áhrif ríkisútgjaldanna.

Samkvæmt tilkynningu bankans mun markaðurinn líklegast sjá bankann hækka vexti þrisvar á árinu. Hver hækkun mun þó líklegast aðeins nema 25 punktum eða 0,25%.

Ef vextir verða hækkaðir hraðar en búist er við, gæti það þó haft alvarlegar afleiðingar á Bandaríkjamenn, sem eru með há fasteigna- og bílalán. Auk þess gætu vaxtahækkanirnar haft afdrifarík áhrif á fjármálamarkaði.

Samkvæmt CME Group eru um 30% líkur á vaxtahækkun í mars.