*

laugardagur, 17. nóvember 2018
Innlent 17. apríl 2018 08:52

Hálfs milljarðs viðskipti með bréf Eikar

Origo eitt þriggja félaga sem lækkuðu í viðskiptum gærdagsins, sem námu 6 milljónum sama dag og það sendi afkomuviðvörun.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,18% í viðskiptum gærdagsins og fór hún í 1.786,16 stig. Markaðsvísitala Gamma hækkaði um 0,11% í 2,55 milljarða veltu og fór hún í 166,654 stig en hlutabréfavísitalan hækkaði um 0,17% í 1,5 milljarða veltu og náði hún 432,249 stigum.

Mest var hækkun á gengi bréfa TM, eða um 1,26% í litlum viðskiptum þó eða fyrir 39 milljónir króna. Fór gengið upp í 36,20 krónur fyrir lok viðskipta.

Næst mest var hækkun á gengi bréfa Eikar fasteignafélags, eða 0,85%, en jafnframt voru mestu viðskiptin með bréf félagsins eða 511 milljónir króna. Lokagengið var 10,08 krónur. Loks hækkaði gengi Reita um 0,72%, fór það upp í 90,45 krónur, í 173 milljóna viðskiptum.

Einungis þrjú félög lækkuðu í virði í kauphöllinni , það er N1, Origo og Síminn. Mest var lækkun N1, eða 1,23% í 56 milljóna viðskiptum og er gengi bréfa félagsins 120,50 krónur.

Origo lækkaði næst mest, eða um 0,85%, en í litlum viðskiptum eða fyrir 6 milljónir króna og fóru bréf félagsins niður í 23,45 krónur. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hefur félagið sent frá sér afkomuviðvörun en tap var á fyrsta ársfjórðungi hjá félaginu. Loks lækkaði gengi Símans um 0,34% niður í 4,35 krónur í 51 milljóna viðskiptum.