Við þingsetningu í gær tók Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins við sem varamaður á þingi Ólöfu Nordal Innanríkisráðherra og fyrsta þingmann Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Á vef Reykjavíkurborgar segir um Hildi:

„Hildur fæddist 22. október 1978. Hún er dóttir Rannveigar Jóhannsdóttur háskólakennara og Sverris Einarssonar heitins sem var rektor Menntaskólans við Hamrahlíð.

Hildur er lögfræðingur og öðlaðist nýverið réttindi til héraðsdómslögmanns en hún lauk lagaprófi frá Háskólanum í Reykjavík og stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Hildur starfar sem lögfræðingur hjá 365 miðlum ehf. Áður hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri V-dags samtakanna sem vinna gegn ofbeldi á konum. Auk þess hefur hún starfað í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og hjá lögmannsstofunni Ambrose Appelbe Solicitors í London.

Hildur var framkvæmdastjóri Reykjavík Dance Festival, alþjóðlegrar danshátíðar. Þá stýrði hún á sínum tíma Jafningjafræðslunni fyrir ÍTR og menntamálaráðuneytið í forvarnarstarfi gegn eiturlyfjaneyslu unglinga.“