Hlutabréf í VÍS hafa hækkað um 3,45% í viðskiptum morgunsins í kauphöll Nasdaq Iceland, en í morgun bárust fréttir þess efnis að Sigrún Ragna Ólafsdóttir sem verið hefur forstjóri fyrirtækisins í fimm ár hafi látið af störfum og Jakob Sigurðsson hafi tekið við.

Mest viðskipti með VÍS

Það sem af er degi hafa lmest viðskipti verið með hlutabréf í fyrirtækinu, eða sem nemur 269 milljónum króna. Fyrir utan hækkanir hjá hinum tryggingafélögunum, þar sem Sjóvá hækkar um 1,47% í 52 milljóna króna viðskiptum og TM um 0,21% í einungis tveggja milljóna króna viðskiptum, þá lækka öll önnur félög fyrir utan Össur sem stendur í stað, og Eim fasteignafélag sem hefur hækkað um 0,58% í verði. Viðskipti með Eim nema 180 milljónum króna.

Hagar einnig lækkað í kjölfar umfjöllunar

Úrvalsvísitalan hefur jafnframt lækkað um 1,41%, en hlutabréf í Högum og Nýherja eru að taka á sig mestu lækkunina. Viðskiptin með Nýherja eru þó lítil, eða einungis fyrir 7 milljónir króna, og lækka bréf fyrirtækisins um 3,13%.

Hagar hafa lækkað um 2,83% í 149 milljón króna viðskiptum, en í morgun birtust fréttir þar sem tekið var saman að margir lykilstarfsmenn fyrirtækisins hafa verið að selja hluti sína í fyrirtækinu. Búist er við titringi á smásölumarkaði með tilvonandi komu Costco á íslenska markaðinn.