Hlutabréfavísitölur í Asíu og Evrópu lækkuðu í morgun. Í Þýskalandi lækkaði DAX vísitalan um 0,34% og FTSE 100 vísitalan í Lundúnum lækkaði lítilega eða um 0,13%. Nikkei vísitalan í Japan lækkaði um 0,76%. Þetta kemur fram í morgunpósti IFS í dag.

Japanska jénið heldur áfram að styrkjast og gefur það til kynna að fjárfestar stígi nú varlega til jarðar vegna yfirvofandi fundar Seðlabanka Bandaríkjanna sem mun hittast í vikunni, en sérfræðingar hafa spáð því að bankinn muni ekki hækka vexti. Seðlabanki Japans mun hinsvegar einnig funda í vikunni en þar er búist við inngripum í þessu nærst stærsta hagkerfi Asíu.

Fjöldi vaxtaskiptasamninga í Kína hefur ekki verið meiri í tíu mánuði með batnandi hagtölum sem þykir benda til að inngrip seðlabankans þar í landi verður minni en talið var. Getur það leitt til spákaupmennsku á hrávörumarkaðnum og húsnæðismarkaðnum.

Gengi evrunnar hækkar

Gengi evrunnar hefur hækkað um 0,24% það sem af er degi og er nú 1,12 gagnvart Bandaríkjadollar. Gengi breska pundsins hækkar einnig og hefur ekki verið sterkara í um einn mánuð.

Frekari lækkanir á olíu yfirvofandi

Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði í nótt en hækkaði svo aftur í morgunsárið og er verðið á Brent hráolíu nú um 44,7 dollarar tunnan. Sádí Arabía hefur ákveðið að auka framleiðslugetu sína í 12 milljón tunnur og Íran hefur auk þess nú þegar aukið sína framleiðslugetu um 1 milljón tunnur síðan viðskiptabanni á landið var aflétt í janúar. Olíuverð gæti því lækkað á komandi dögum.