Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra vill endurskoða útlánakerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN). Hann segir styrkjakerfi fólgið í íslenska námslánakerfinu, en að það sé engin alvöru stefnumótun á bak við hvernig þeim styrkjum er úthlutað eða til hverra þeir renna. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Samkvæmt ársskýrslu LÍN sem kom út í gær fæst um helmingur útlána LÍN ekki endurgreiddur. Verulegur munur er á hve mikið lánþegar endurgreiða eftir því hve há lánsfjárhæðin er. Einstaklingar sem skulda LÍN undir 2,5 milljónum króna endurgreiða 85 prósent af virði lánsins. Þeir sem skulda yfir 15 milljónir króna endurgreiða hins vegar á milli 18 og 27 prósent af virði lánsins.

Eins og VB.is greindi frá í gær, styrkir ríkið þá sem skulda LÍN mest um yfir 70 prósent af lánsfjárhæðinni en þá sem skulda LÍN minnst um 15 prósent að meðaltali.

Vanskil hjá sjóðnum jukust um 690 milljónir króna í fyrra, mest hjá yngstu lánþegunum. Illugi segir í samtali við Fréttablaðið að það sé vissulega áhyggjuefni að sjá þróunina varðandi vanskil. Hann segir brýnt að við endurskoðun laga um lánasjóðinn verði tekið mið af auknum vanskilum og hvernig ríkisstyrkir dreifist milli lánþega.