Félag atvinnurekenda hefur ritað Snorra Olsen bréf þar sem er kvartað yfir seinagangi embættisins við eftirlit með förgun áfengis.

Öll þau fyrirtæki sem stunda framleiðslu og/eða innflutning á áfengi eiga rétt á því að fá áfengisgjald endurgreitt ef vara verður óseljanleg, t.d. ef að umbúðir skemmast eða vara rennur út. Til að fá endurgreiðsluna verður förgun áfengis að fara fram undir eftirliti tollayfirvalda.

Í bréfi Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, til tollstjóra segir:

„Samkvæmt upplýsingum frá aðildarfyrirtækjunum er mikill misbrestur á því að embætti tollstjóra sjái sér fært að verða skjótt við beiðnum um að hafa eftirlit með förgun áfengis. Hefur manneklu verið borið við. Dráttur á því að orðið sé við beiðni um slíkt nemur oft og iðulega mörgum mánuðum og í sumum tilvikum nokkrum árum. Er undirrituðum þannig kunnugt um tilvik þar sem fjögur ár liðu frá því beiðni var send tollstjóraembættinu og þar til því varð við komið að hafa eftirlit með förgun áfengis,“

Fram kemur að þessi seinagangur hafi í för með sér umtalsvert tjón fyrir fyrirtækin sem í hlut eiga. Fjárbinding vegna áfengisgjalda, sem ekki fást endurgreidd, geti numið milljónum króna. Þá geti geymslukostnaður hlaupið á hundruðum þúsunda og dæmi séu um að innflutningsfyrirtæki fái jafnframt sektir frá birgjum vegna þess að margnota umbúðum er ekki skilað.

„Þetta er einkar bagalegt fyrir fyrirtækin, ekki sízt vegna þess að mannekla hjá tollstjóraembættinu hefur ekki staðið innheimtu opinberra gjalda af þeim fyrir þrifum með sama hætti og endurgreiðslunum sem fyrirtækin eiga ótvíræðan rétt á samkvæmt lögum. Þess er hér með farið á leit að embættið leiti leiða til að uppfylla skyldur sínar lögum samkvæmt, virða málshraðareglur stjórnsýslulaga og afstýra frekara tjóni.“