*

fimmtudagur, 22. nóvember 2018
Innlent 6. desember 2017 19:29

Íslendingur útskrifast úr brytaskóla

Jóhann Gunnar Arnarsson útskrifaðist úr einum virtasta brytaskóla í heiminum en þar ríkir mikill agi.

Höskuldur Marselíusarson
Johann Gunnar Arnarsson.
Haraldur Guðjónsson

Jóhann Gunnar Arnarsson útskrifaðist nýlega úr brytaskólanum „The International Butler Academy“ í Hollandi, sem sér hirðum konungsfjölskyldna í Hollandi, Jórdaníu og Sádi-Arabíu fyrir brytum (e. butler), ásamt því að reka öfluga ráðningarþjónustu.

„Skólinn er rekinn í litlum bæ í suðurhluta Hollands, rétt hjá Maastricht, en hann er þar í gömlu munkaklaustri, sem er litlir 7.500 fermetrar að stærð, en það er jafnframt heimili eigandans. Það er kannski sérstaða skólans, sem er einn sá virtasti í faginu, að nemendurnir og kennararnir búa þarna meðan á námskeiðinu stendur,“ segir Jóhann en eigandinn hefur um 40 ára reynslu eftir að hafa starfað sem bryti, eða yfirþjónn, beggja vegna Atlantshafsins.

„Þetta voru tíu vikur, en á bak við þær voru á bilinu 650 til 700 tímar í kennslu, en námið er stíft og þar ríkir mikill agi. Til dæmis var lagt blátt bann við því að við drykkjum áfengi, hvort sem það væri á frídegi eða ekki. Í náminu er tekið á mjög mörgu. Í bóklega náminu lærum við um alla umsýslu heimilisins, frá bókhaldi og samskiptum við birgja, verktaka og svo framvegis. Einnig lærum við um mannaforráð, bæði hvernig á að ráða og reka fólk, sem og hvernig á að halda uppi góðum samskiptum, þá milli þín og starfsfólksins og meðal starfsfólksins. Loks er farið í allar siðvenjur og reglur, til dæmis með þriggja tíma, níu rétta, kvöldverðaræfingum nánast vikulega.“

Jóhann er þó ekki búinn að ákveða hvað hann gerir við námið.

„Það er eiginlega allt opið, ég er eiginlega að finna út hvað ég vil verða þegar ég verð stór. Nú er verið að byggja tvö fimm stjörnu hótel hérna heima, og eitt af því sem ég myndi segja að væri nauðsynlegt fyrir lúxushótel sé að bjóða þjónustu bryta, enda eru viðskiptavinir þeirra vanir henni. Hótelbrytar eru ört stækkandi stétt, enda kröfurnar sífellt meiri.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

 • SA telja nýjan stjórnarsáttmála kosta 90 milljarða á ári þegar allt verður komið til framkvæmda
 • Aðeins þrjú af tólf stærstu sveitarfélögunum ætla að lækka fasteignagjöld á fyrirtæki
 • Íslandspóstur er talinn misnota markaðsráðandi stöðu sína á póstmarkaði
 • Formaður ASÍ segir ríkisstjórnina bjóða verðlausa gjaldmiðla í kjaraviðræðunum
 • Miklar breytingar á regluverki banka gætu haft áhrif á arðgreiðslugetu íslensku bankanna
 • Umfjöllun um landflótta smálánafélaganna til Danmerkur
 • Ítarlegt viðtal við Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins og nýjan samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
 • Umfjöllun um bókina Líftaug landsins sem rekur sögu utanríkisverslunar á Íslandi
 • Viðar Reynisson framleiðir Ljótar kartöfluflögur úr íslenskum kartöflum
 • Steinunn Kristín Þórðardóttir nýr stjórnarmaður í Arion banka er tekin tali
 • Óðinn er á sínum stað og fjallar um tjáningarfrelsi á tímum samfélagsmiðla
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um mótmæli við heimili stjórnmálamanna