*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 1. júlí 2012 09:45

Íslensku bankarnir með meiri vaxtamun en erlendir bankar

Vaxtamunur Íslandsbanka 4,6%, Landsbankans 3,5% og Arion banka 3,4% á árinu 2011.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Það getur oft verið vandasamt að bera saman rekstur ólíkra banka, sérstaklega ef ólíkar aðferðir eru notaðar til að reikna út hlutföll sem tengjast kostnaði, vaxtamun og öðrum slíkum þáttum. Þrátt fyrir þetta er nokkuð ljóst að munur á vöxtum eigna og  skulda íslensku bankanna er oftast nær meiri en hjá bönkum erlendis.

Vaxtamunur bankanna

Í skýrslu Bankasýslu ríkisins eru vaxtatekjur og vaxtagjöld bankanna skoðuð með tilliti til meðalstöðu og gjaldeyrissamsetningar á árinu 2011. Þannig er sett fram hversu hátt vaxtaálag um er að ræða miðað við millibankavexti (e. LIBOR). Þar kemur fram að vaxtamunur Íslandsbanka á þessum grunni nemur 4,6%, 3,6% hjá Arion banka og 2,8% hjá Landsbankanum.

Í greiningu Fjármálasviðs Arion banka eru tölurnar um vaxtamun aðeins breyttar fyrir Arion banka og Landsbankann. Þar kemur fram að vaxtamunur hjá Arion banka sé 3,4% og 3,5% hjá Landsbankanum. Þrátt fyrir þennan mun er nokkuð ljóst að vaxtamunur íslensku bankanna er yfirleitt meiri en hjá þeim bönkum sem menn bera sig saman við. Í greiningunni hjá Arion banka er það bara BankNordic sem er með hærri vaxtamun en Landsbankinn og Arion banki en Bank- Nordic var með 3,9% vaxtamun á árinu 2011. 17 aðrir bankar eru til viðbótar í þeim samanburði, þar á meðal Deutsche Bank, DnbNor, Sampo Bank og SparNord svo fáeinir séu nefndir. Þeir eru allir með lægri vaxtamun en íslensku bankarnir.

Þrír bankar eru með vaxtamun undir einu prósenti, níu með vaxtamun á milli eins og tveggja prósentustiga og fjórir með vaxtamun frá tveimur prósentum upp að þremur prósentustigum. Bank of Cyprus er svo með þriggja prósenta vaxtamun á meðan íslensku bankarnir koma ásamt BankNordic þar fyrir ofan.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.