Japanska yenið veiktist á mörkuðum í nótt og hefur verðgildi þess ekki verið jafnlágt í þrjár vikur. Gjaldmiðillinn hefur löngum þótt vera örugg höfn á óróleikatímum, en fjárfestar virðast telja minni nauðsyn en áður að leita öryggis í kjölfar hagstæðra hagvaxtartalna frá Kína.

Aukin bjartsýni á mörkuðum

Stendur nú Bandaríkjadalur í 105,908 yenum en það var í 105,35 seint á fimmtudag á mörkuðum í New York. Fór yenið lægst niður í 106,32 yen fyrir hvern dal um miðjan dag, sem er veikasta gengi þess síðan 24. júní. Yenið stendur jafnframt í 117,972 yenum fyrir evruna, sem er veiking frá 117,21 meðan breska pundið styrktist gagnvart yeninu og fór í 142,019 yen fyrir hvert pund úr 140,58 yenum.

Þrátt fyrir að Englandsbanki hafi haldið aftur af stýrivaxtalækkunum í gær þá eru markaðir í heiminum að sýna aukna bjartsýni.

Helstu vísitölur hækka

Hækkaði Nikkei vísitalan í Japan um 0,68%, en veiking yensins eru góðar fréttir fyrir útflutning landsins.

Aðrar vísitölur á svæðinu hækkuðu flestar meðan markaðir voru opnaðir í nótt:

  • Kospi vísitalan í Suður Kóreu hækkaði um 0,42%
  • Jafnframt hækkaði Hang Seng vísitalan í Hong Kong um 0,46%.
  • Taiwan Weighted vísitalan hækkaði svo um 0,94%.
  • Shanghai Composite vísitalan í Kína hélst stöðug með aukningu um 0,01%.
  • Ástralska S&P/ASX 200 vísitalan hækkaði jafnframt um 0,33%.
  • Þýska Dax vísitalan hefur svo hækkað um 0,23% síðan markaðir þar opnuðu í morgun.
  • S&P 500 vísitalan hækkaði á mörkuðum í gær um 0,53% meðan Dow Jones vísitalan hækkaði um 0,73%.