Gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar eru um 40% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins og ferðaþjónustan því ein stærsta útflutningsgrein landsins. Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA), segir að í ljósi þessa séu rök fyrir því að íslensku flugfélögin, WOW air og Icelandair , sem sjá um að ferja ferðamenn til og frá landinu, séu orðin kerfislega mikilvæg fyrir efnahagslegan stöðugleika.

Ásdís segir að samkeppnishæfni allra íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni fari hratt þverrandi, raungengi sé í sögulegum hæðum sem fyrst og fremst megi rekja til gríðarlegra launahækkana undanfarin ár.

„Launakostnaður íslenskra flugfélaga er verulega íþyngjandi og langtum hærri en hjá sambærilegum erlendum flugfélögum eins og bent hefur verið á upp á síðkastið,“ segir Ásdís. „Þá hafa flugfargjöld á sama tíma farið lækkandi og þessu til viðbótar hefur olíuverð farið hækkandi sem hefur áhrif á rekstur þessara flugfélaga. Staðan er því snúin og ljóst að erfitt rekstrarumhverfi er að koma niður á báðum flugfélögunum eins og öðrum íslenskum fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni.“

Vandinn á kostnaðarhliðinni

Ásdís bendir á að bæði flugfélögin hafi vaxið mikið undanfarin ár. Segir hún að það sé ef til vill eðlilegt í ljósi þess að hlutfallsleg fjölgun ferðamanna hafi verið um 20% á ári frá árinu 2012.

„Ferðaþjónustan hefur breyst ansi hratt á örfáum árum og það hefur þurft að ráðast í miklar fjárfestingar í greininni. Það á líka við um flugfélögin. Það lá þó alltaf fyrir að tugi prósenta árleg fjölgun ferðamanna myndi ekki vara lengi og það er fyrst nú sem við sjáum merki þess að fjölgunin verður nær því sem gengur og gerist úti í heimi. Þetta er hins vegar að gerast kannski heldur hraðar en gert hafði verið ráð fyrir. Ég held að vandinn sé fyrst og fremst á kostnaðarhliðinni hjá íslenskum útflutningsfyrirtækjum, þar með talið flugfélögum.“

Gjaldþrot?

Spurð hvað það myndi þýða ef annað flugfélaganna færi í gjaldþrot svarar Ásdís: „Auðvitað er erfitt að segja til um hver áhrifin yrðu en miðað við markaðshlutdeild íslensku flugfélaganna þá bendir allt til þess að áhrifin gætu orðið töluverð fyrir hagkerfið í heild ef annað félagið lendir í rekstrarerfiðleikum, bæði varðandi atvinnustig og eins í gegnum helstu stærðir þjóðhagsjöfnunar. Gjaldeyristekjur þjóðarbúsins í formi fargjalda á árinu 2017 voru 180 milljarðar króna og þar af gætu verið um 40% af þeim vegna erlendra ferðamanna um Ísland. Það munar um minna.

Erlendum ferðamönnum myndi fækka, að minnsta kosti fyrst um sinn, og þar með mun neysla erlendra ferðamanna á Íslandi dragast saman. Önnur ferðaþjónustufyrirtæki myndu því einnig finna fyrir minnkandi umsvifum, hvort sem horft er til fyrirtækja í hótelrekstri, veitingasölu eða ýmiss konar afþreyingu. Áhrifin á hagkerfið í heild gætu því orðið töluverð en til að setja í samhengi þá mældist hlutur ferðaþjónustu í allri verðmætasköpun í hagkerfinu 8,6% á síðasta ári.

Aðalatriðið nú er sú staðreynd að allar útflutningsgreinar eru í þröngri stöðu um þessar mundir. Það eyðist sem af er tekið og samkeppnishæfni íslenskra vara og þjónustu á alþjóðamarkaði fer hratt þverrandi.

Á endanum skiptir þó höfuðmáli hversu mikið traust og hversu mikinn trúverðugleika áfangastaðurinn Ísland hefur og hvort og þá á hversu löngum tíma tekst að fylla í gatið. Það gæti þó tekið einhvern tíma og kannski er það fullmikil bjartsýni að halda að önnur erlend flugfélög muni fylla í mögulegt skarð sem gæti myndast tímabundið.“

Starfshópur á vegum stjórnvalda, sem vinnur að því að greina stöðu kerfislega mikilvægra fyrirtækja í efnahagslífinu og hafa til taks neyðaráætlun vegna hugsanlegra áfalla, tók til starfa síðasta vetur. Á meðal fyrirtækja sem starfshópurinn er að skoða eru íslensku flugfélögin, WOW air og Icelandair . Stefnt er að því að starfshópurinn birti niðurstöður sínar á næstu vikum.

Ætti ríkið að grípa inn í?

Spurð hvort ríkið eigi að skipta sér af þessu, grípa inn í ef illa fer, eða bara setja leikreglurnar svarar Ásdís: „Staða þjóðarbúsins er óvenjusterk um þessar mundir, skuldastaðan hefur á tíu árum farið úr því að vera algjörlega ósjálfbær í að vera í sögulegum samanburði óvenjusterk. Hrein erlend eignastaða var jákvæð um ríflega 260 milljarða króna um mitt þetta ár. Sterk staða þjóðarbúsins skiptir gífurlegu máli einkum nú þegar bakslag kemur fram í hagkerfinu.

Ríkið hefur fremur verið að þrengja að fyrirtækjum með alls kyns reglum og kvöðum undanfarin ár og því tel ég að stíga þurfi varlega til jarðar áður en ríkið fer að vera með sértæk afskipti. Miklu eðlilegra er að reyna að bæta almennt samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja með skattalækkunum, til dæmis lækkun tryggingagjalds sem myndi hjálpa fyrirtækjum með háan launakostnað, og endurskoðun lagaumhverfis. Það virðist sem hið opinbera eigi auðveldara með að herða reglurnar en að slaka á þeim.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .