Bandaríska kvikmyndaverið Paramount hlýtur talsverða innspýtingu, en tvö kínversk fyrirtæki hafa sett 1 milljarð dollara í kvikmyndaframleiðslu Paramount. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Fyrirtækin tvö, Shanghai Film Group og Huahua Media koma því til með að fjármagna fjórðung allrar kvikmyndaframleiðslu bandaríska kvikmyndaframleiðendans næstu þrjú ár. Þetta gerir Paramount kleyft að komast inn á kínverskan markað, sem er sá næst stærsti í heimi, ef miðað er við aðgöngumiðasölu í kvikmyndahúsum.

Brad Grey, forstjóri Paramount, segir að þetta sé öflugur leikur fyrir bandaríska kvikmyndaverið þar sem að Shanghai Film Group eigi sér langa og farsæla sögu og Huahua hafi staðið sig vel á kínverska markaðnum. Shanghai Film Group fjárfesti meðal annars í nýju myndinni um Jack Reacher: Never Go Back.