*

laugardagur, 20. október 2018
Innlent 13. janúar 2018 10:02

Kyrrsetja eignarhlut í Austur

Óþekktur íranskur maður er skráður eigandi Austurs, en skuldir hans við endurskoðendur og lögmannsstofur hlaupa á milljónum.

Snorri Páll Gunnarsson
Austur hefur undanfarin ár verið einn vinsælasti skemmtistaður landsins.
Haraldur Guðjónsson

Tveir héraðsdómslögmenn hafa nýverið höfðað mál gegn Alfacom General Trading ehf. vegna vanefnda. Í báðum stefnum er gerð sú krafa að kyrrsetning verði staðfest í eignarhlut félagsins í 101 Austurstræti ehf., sem rekið hefur skemmtistaðinn Austur við Austurstræti 7 undanfarin ár.

Ragnar Þórður Jónasson héraðsdómslögmaður kveðst höfða mál gegn félaginu og gerir kröfu um að félagið greiði sér rúmlega 6,8 milljónir króna auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Þórhallur Haukur Þorvaldsson héraðsdómslögmaður, fyrir hönd Veritas, gerir kröfu um að félagið greiði sér 1,9 milljónir króna auk dráttarvaxta og málskostnaðar.

Báðar tengjast kröfurnar vanefndum vegna veittrar lögfræðiþjónustu í deilum meðal fyrri hluthafa Austurs, þá Ásgeir Kolbeinsson og Styrmi Þór Bragason. Deilurnar tengdust efndum kaupsamnings um kaup Alfacom á 50% hlut í Austur. Kyrrsetningarnar voru gerðar hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í september.

Ásgeir Kolbeins seldi sig út

Stefnan byggir á hluthafaskrá CreditInfo. Samkvæmt hluthafaskrá Alfacom General Trading er félagið alfarið í eigu Gholamhossein Mohammad Shirazi. Er hann jafnframt framkvæmdastjóri félagsins og stjórnarmaður, en stjórnarformaður er Hamed Mohammadshirazi og varamaður Reza Mansouri. Allir eru mennirnir frá Íran.

Alfacom er skráð 50% eigandi að 101 Austurstræti ehf. samkvæmt hluthafaskrá CreditInfo. Fjölmiðla- og athafnamaðurinn Ásgeir Kolbeinsson er skráður eigandi að 25% hlut í 101 Austurstræti á móti 25% hlut Gholamhossein Mohammad Shirazi. Ársreikningur 101 Austurstrætis tilgreinir Shirazi þó einan sem eiganda félagsins í lok árs 2016, sem og stjórnarformann. Ásgeir staðfestir við Viðskiptablaðið að aðkoma hans að Austur sé í dag engin og hafi ekki verið síðastliðið ár.

101 Austurstræti velti tæplega 205 milljónum króna árið 2016 samkvæmt ársreikningi. Tap var á rekstri félagsins að fjárhæð 5,2 milljónir króna. Eignir þess námu 57,6 milljónum í árslok. Þar af voru skammtímaskuldir 36,6 milljónir og eigið fé tæplega 21 milljón. Í skýrslu stjórnar var lagt til að greiða út arð árið 2017 allt að þeirri upphæð sem lög leyfa. Framkvæmdastjóri og rekstrarleyfishafi staðarins, fyrir hönd 101 Austurstrætis ehf., er Víkingur Heiðar Arnórsson.

Samkvæmt stefnunum, sem birtust nýverið í Lögbirtingarblaðinu, fer greiðslugeta Alfacom versnandi. Það leiði til þess, að félagið geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þá eru forsvarsmenn félagsins erlendir ríkisborgarar, sem hvorki hafa átt lögheimili né aðsetur á Íslandi, og ekki hefur náðst til þeirra. Því hafa innheimtutilraunir reynst árangurslausar.

Í ljósi þessa eru miklar líkur taldar á því að Alfacom kunni að selja eign sína í Austur og flytja söluandvirðið úr landi án þess að áður sé gert upp við kröfuhafa. Þess vegna var farið fram á kyrrsetningu á umræddum eignarhluta til að tryggja kröfurnar.

Stendur í alvarlegum vanskilum

Gholamhossein Mohammad Shirazi hefur verið stefnt fyrir hönd Alfacom General Trading vegna skuldanna. Mál Þórhalls verður þingfest 13. febrúar næstkomandi í Héraðsdómi Reykjavíkur, en mál Ragnars þann 15. mars. 

Fimm sinnum hefur verið gert árangurslaust fjárnám hjá Alfacom samkvæmt vanskilaskrá CreditInfo. Frá árinu 2015 hafa verið áritaðar fjórar stefnur á hendur félagsins af hálfu KPMG, Logos og Veritas vegna mjög alvarlegra vanskila. Skuldirnar hlaupa á milljónum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.