„Fréttir undanfarinna daga ættu að vera tilefni til að hefja samtal milli lífeyrissjóðanna og stórra skráðra hlutafélaga, sem þeir hafa fjárfest í, um starfskjarastefnu fyrirtækjanna annars vegar og hluthafastefnu lífeyrissjóðanna hins vegar,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í leiðara fréttabréfs SA.

Hann segir jafnframt að einstaka launahækkanir stjórnenda hafi verið nefndar sem dæmi um að hækka þurfi laun allra verulega. Þegar heildarmyndin sé skoðuð komi þó í ljós að heilt yfir hafi stjórnendur sýnt miklar ábyrgð.

„Tölur frá Hagstofu Íslands staðfesta að stjórnendur hafa hækkað hlutfallslega minna en meðallaun í landinu frá 2014 til 2016 sem eru nýjustu gögn sem til eru,“ segir Halldór Benjamín í leiðaranum. Á árunum 2014-2016 hafa laun heilt yfir sviðið hækkað að meðaltali um 16,6% en laun stjórnenda hækkað um 14,8%. Á þeim tíma hefur verkafólk hækkað um 18,3%.

Mest hafa laun tækni- og sérmenntaðs starfsfólks hækkað eða um 21,4%. Minnst hafa sérfræðingar hækkað eða um 10,2%. Þá hafa iðnaðarmenn hækkað um 20,1%, þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk hækkað um 18,6% og skrifstofufólk hækkað um 14,1%.

Halldór Benjamín segir þó jafnframt að allir verði að sýna hófsemd í sínum kröfum, stjórnendur fyrirtækja líka, og að miklar launahækkanir stjórnenda tiltekinna fyrirtækja og stofnana séu ekki stefna Samtaka atvinnulífsins. „Þær hjálpa ekki Samtökum atvinnulífsins og verkalýðshreyfingunni við að tryggja varanlega kaupmáttaraukningu með reglulegum hóflegum launahækkunum, stöðugu verðlagi og lágri verðbólgu. Hóflegar kröfur eru allra hagur til langs tíma.“