*

sunnudagur, 20. janúar 2019
Innlent 8. janúar 2016 16:30

Lífeyrissjóðir mega fjárfesta 20 milljörðum erlendis

Seðlabankinn heimilar lífeyrissjóðum að fjárfesta fyrir 20 milljarða króna í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Seðlabankinn heimilar lífeyrissjóðum að fjárfesta fyrir 20 milljarða króna í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri. Heimildin er tíma- og magnbundin undanþága frá fjármagnshöftum, en hún gildir fyrstu fjóra mánuði ársins. 

Sambærileg undanþága var veitt á síðasta ári, en þá var lífeyrissjóðum og öðrum vörsluaðilum séreignarsparnaðar gert kleift að fjárfesta fyrir 10 milljarða króna.

Í tilkynningu Seðlabankans segir að gjaldeyrisinnstreymi á nýliðnu ári og samþykkt kröfuhafa slitabúa bankanna á frumvörpum til nauðasamninga hafi skapað svigrúm til frekari fjárfestingar lífeyrissjóða erlendis. 

Enn fremur segir að í slíkum fjárfestingum felist þjóðhagslegur ávinningur þar sem lífeyrissjóðunum er gert mögulegt að bæta áhættudreifingu í eignasöfnum. 

Á sama tíma er dregið úr uppsafnaðri erlendri fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna þegar fjármagnshöft verða losuð. Þá sé heimildin aukna einnig líkleg til að draga úr óstöðugleika við losun hafta á Íslandi þegar að því kemur.