*

fimmtudagur, 19. júlí 2018
Erlent 10. febrúar 2016 17:44

Löggueftirlitsforrit bannað í Íran

Forrit sem gerir notendum kleift að fylgjast með ferðum írönsku siðferðislögreglunnar var bannað innan sólarhrings frá útgáfu þess.

Karl Ó. Hallbjörnsson
epa

Í Íran er til sérstök deild innan löggæslukerfis ríkisins sem er kölluð siðferðislögreglan. Þessi deild hefur það hlutverk að sjá til þess að ýmsum siðgæðisreglum sé framfylgt. Þeirra eftirlætis réttlætismál er að ráðast að konum sem gerast svo djarfar að fara út úr húsi án þess að vera með ‘hijab’ höfuðklæði. Frá þessu er sagt á vef Iran Human Rights.

Forritið sem um ræðir notaðist við kraft fjöldans, í því að hver og einn gat merkt inn meðlimi siðgæðislögreglunnar á sameiginlegt kort. Þannig gat fólk sem ekki vildi rekast á siðferðislögregluna sneitt hjá því eða farið einhverja krákustíga til að forðast óþægindi og janvel sektir.

Forritið varð ekki langlíft, en það var tekið niður og bannað eftir lítinn sólarhring frá útgáfu þess. Þrátt fyrir að yfirvöld hafi brugðist hratt við varð forritið þó fremur vinsælt - aðeins klukkustundum eftir að það var gefið út voru eitt þúsund manns skráðir notendur.

Ekki er forritið þó gallalaust - augljóst er að siðferðislögreglan sjálf hefði getað haft aðgang að forritinu og notfært sér það til þess að leggja gildrur fyrir ólukkulegt og frjálslynt fólk, sem ef til vill hefur engan áhuga á því að þurfa að framfylgja þessum reglugerðum um höfuðföt.

Stikkorð: Íran Snjallsímar Tækni Forrit