Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins segir það óábyrgt af ríkisvaldinu að búast við því í nýrri fjármálastefnu að núverandi hagvaxtarskeið haldi áfram að því er segir í Fréttablaðinu .

„Það eru vísbendingar um að hér sé að hægja mjög hratt á hagkerfinu. Sé hagvöxturinn settur í samhengi við hinn agnarsmáa afgang sem gert er ráð fyrir þá má lítið út af  bregða áður en við erum í hallarekstri,“ segir Ásdís sem bendir á að fyrirliggjandi fjármálastefna sé sú þriðja á jafnmörgum árum.

„Í raun er ekki mikil breyting frá fyrri stefnum en það sem einkennir þær allar er að gengið er út frá þeirri forsendu að hér verði eitt lengsta hagvaxtarskeiði sem við höfum upplifað í áratugi.“

Ásdís segir það mikilvægt að gæta aðhalds á uppgangstímum. Hafa samtökin sett upp mismunandi sviðsmyndir miðað við forsendur um hagvöxt sem sýna að afgangur af ríkisfjármálum helmingist við 1 prósentustiga minni hagvöxt.

„Það er óábyrg stefna að búa ekki betur í haginn því það mun margborga sig þegar harðnar á dalnum. Fjármálastefnan nú gerir meira að segja ráð fyrir minni afgangi en sú fyrri sem er gagnrýnivert,“ segir Ásdís en samtökin gagnrýna að afkomureglan sem notuð er í gerð fjármálaáætlunarinnar leiðrétti ekki fyrir hagsveiflunni.

„Í núverandi mynd tryggir afkomureglan ekki það aðhald sem þarf á tímum uppgangs.“