Fyrir stuttu komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að vinnuveitanda hafði verið heimilt að skoða persónuleg samskipti starfsmanns sem fóru fram í gegnum forritið Yahoo messenger. Niðurstaðan í málinu var skýr um að þetta ætti við um samskiptaforrit og skiptir þar engu máli hvort um sé að ræða tölvupóst eða önnur samskiptaforrit.

Vinnuveitendum hefur almennt verið talið óheimilt að skoða persónuleg samskipti starfsmanna, óháð því hvort þau fari fram á vinnutíma eða hvort til þeirra sé notað tölvubúnaður í eigu vinnuveitenda. Niðurstöður Mannréttindadómstóls Evrópu hafa fordæmisgildi hér á landi við túlkun réttinda og því má ætla að vinnuveitendur hafi sömu réttindi til að skoða persónuleg samskipti starfsmanna ef aðstæður eru sambærilegar

Forsaga málsins er sú að verkfræðingi í Rúmeníu var sagt upp starfi sínu eftir að hafa spjallað við bróður sinn og kærustu á vinnutíma. Það sem var m.a. deilt um var hvort vinnuveitandinn hafði haft heimild til þess að skoða persónuleg samskipti starfsmannsins, en skoðun á þeim leiddi til uppsagnar starfsmannsins.

Skýrar reglur lágu fyrir

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að varast eigi að draga of miklar ályktanir af þessum dóm Mannréttindadómstólsins. „Ástæðan er sú að það eru allsérstakar aðstæður uppi í þessu tilviki. Á þessum vinnustað voru mjög skýrar reglur sem giltu um hvernig mætti nota vinnutækin sem vinnuveitandinn bauð upp á. Þessi starfsmaður var t.d. búinn að skrifa undir yfirlýsingu þar sem kom fram að það væri algerlega bannað að trufla friðinn og agann á skrifstofu þessa vinnuveitanda og að það mætti alls ekki nota tölvur, ljósritunarvélar, síma, faxtæki og slíkt til einkanota. Það var alveg ljóst að þetta voru reglurnar.

Auk þess var það vinnuveitandinn sem bað um að þetta forrit yrði sett upp og að tilgangurinn með því væri eingöngu til að svara viðskiptavinum. Skömmu áður en starfsmað­ urinn fær tilkynningu um að það væri verið að fylgjast með honum var nýbúið að reka annan starfsmann fyrir að nota búnað fyrirtækisins til einkanota. Þannig að þetta voru mjög stífar, en skýrar reglur á þessum vinnustað sem starfsmað­ urinn var búinn að samþykkja.“

Helga segir að starfsmanninum hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um málið en hann hélt því skýrt fram að hafa aldrei notað forritið til einkanota. Það lá þó fyrir rökstuddur grunur um annað og að þegar forritið hafi verið skoðað fundust persónuleg samskipti. Einnig var sérstaklega tekið fram að þar sem einungis átti að nota forritið í vinnutilgangi þá hafi vinnuveitanda verið heimilt að skoða það, þar sem heimilt er að fylgjast með vinnubrögðum starfsmanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .