Bandaríska tæknifyrirtækið NetApp festi á dögunum kaup á Íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Greenqloud. Fyrirtækið var stofnað árið 2010 af þeim Eiríki Hrafnssyni og Tryggva Lárussyni og var á þeim tíma fyrsta fyrirtæki í heiminum til að bjóða upp á skýþjónustu sem eingöngu var rekin á endurnýjanlegri orku.

Þegar Jónsi Stefánsson, núverandi forstjóri Greenqloud, gekk til liðs við fyrirtækið árið 2014 varð mikil stefnubreyting í rekstri Greenqloud. Almenna skýþjónustan var lögð niður og megináherslan var lögð á þróun á Qstack-hugbúnaðinum. Qstack er sérhönnuð hugbúnaðarlausn sem getur á auðveldan hátt stýrt skýlausnum og innanhúss tölvuþjónum fyrirtækja.

NetApp er eitt stærsta fyrirtæki Bandaríkjanna og hefur verið á Fortune 500 listanum frá árinu 2012. Höfuðstöðvar þess eru í Sunnyvale í Kaliforníu og er fyrirtækið með yfir 12.000 starfsmenn. Þá hýsir fyrirtækið stóran hluta af gögnum bandaríska ríkisins. Með kaupum NetAPP á Greenqloud mun fyrirtækið starfa undir nafninu NetApp Iceland og verður starfsemin áfram á skrifstofum þess í Reykjavík og í Seattle.

Hlutirnir gerðust hratt

„Við höfum verið að vinna með NetApp af og til á síðustu tveimur árum,“ segir Jónsi. „Í vor hófst svo náin samvinna milli fyrirtækjanna tveggja. Það hefur verið gríðarleg vinna hjá öllum innan fyrirtækisins að koma því á kortið. Það hefur tekist mjög vel, fyrirtækið hefur vakið mikla athygli hjá öllum stærstu fyrirtækjunum innan þessa geira. Má þar nefna Intel, HP, Microsoft og Google. Við höfum verið í samstarfsverkefnum með öllum þessum fyrirtækjum. Það gerði okkur lífið töluvert auðveldara eftir að við komumst á kortið að fá slík verkefni. Síðan gerðist það að töluverður áhugi var til staðar hjá öllum þessum aðilum að kaupa Greenqloud. Eftir það gerðust hlutirnir gífurlega hratt og sem endaði með því að NetApp gekk frá kaupum á fyrirtækinu.“

Jónsi segir að mikil teymisvinna og þolinmæði liggi að baki því að gengið hafi verið frá sölunni til NetApp.

„Þetta ferli hefur tekið mikla þolinmæði og það eru mörg lítil skref að baki því. Við höfðum trú á vörunni og hún hefur vakið mikla athygli. Það eru margar ferðir sem starfsfólk hefur þurft að fara fram og til baka og þetta er eins mikil teymisvinna og hugsast getur. Það er hver og einn með ákveðið hlutverk og ef þú vinnur saman sem svo þéttheldið teymi eins og við erum með hjá Greenqloud þá kemur sá tímapunktur að árangurinn næst. Þetta snýst allt um teymið.“

Hröð uppbygging framundan

Eins og áður segir mun Greenqloud starfa undir nafninu NetApp Iceland. Fyrirtækið er í dag með um 35 starfsmenn á Íslandi en stefnt er því að tvöfalda þann fjölda fyrir lok þessa árs.

„Ég mun halda áfram hjá fyrirtækinu og mun taka við starfi framkvæmdastjóra ský- þjónustu hjá NetApp en mun áfram starfa á Íslandi. Þá munu stofnendur fyrirtækisins, þeir Tryggvi og Eiríkur, taka við stöðu tækniþróunarstjóra hjá NetApp.

NetApp veit væntanlega að það eru gífurleg tækifæri fólgin í Qstack með því að sameina stýringu og gagnaflæði milli innri tölvukerfa til ytri skýjaþjónusta. Nú tekur við gríðarlega hröð uppbygging sem við þurfum að passa okkur á að gerist ekki of hratt. Við erum að standa skil á mjög stórum verkefnum sem partur af NetApp, sem við megum alls ekki missa sjónar á því að þetta eru mun stærri verkefni en við höfum nokkurn tímann unnið. Við þurfum því að haga uppbyggingunni eins fagmannlega og kostur er.

Uppbyggingin mun fyrst og fremst eiga sér stað hér á Íslandi. Það má ekki gleyma því að þetta er ekki bara yfirtaka á vöru heldur einnig á hæfileikum starfsfólks. Þegar þess konar yfirtaka á sér stað viltu gera það sem starfsmennirnir vilja. NetApp kom okkur töluvert á óvart, þar sem við vorum undirbúnir undir að þeir myndu vilja taka fyrirtækið og alla starfsmenn þess til Bandaríkjanna. Ég tel þó að þetta sé skynsamlega ákvörðun hjá NetApp, að halda starfseminni á Íslandi.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .