*

sunnudagur, 20. janúar 2019
Erlent 12. september 2018 10:25

New York ákjósanlegust fjármálamiðstöðva

New York hefur tekið fram úr London sem ákjósanlegasta fjármálamiðstöð heimsins eftir að bankar færðu starfsfólk vegna Brexit.

Ritstjórn
New York Stock Exchange, kauphöllin í New York, er stærsta kauphöll heims eftir markaðsvirði skráðra félaga.
epa

New York-borg mælist nú heimsins ákjósanlegasta fjármálamiðstöð, og tekur fyrsta sætið af London, í kjölfar ákvarðana banka um að færa starfsfólk þaðan vegna Brexit, til að viðhalda aðgangi að innri markaði Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í frétt Reuters.

Þetta eru niðurstöður alþjóðlegrar vísitölu fjármálamiðstöðva, sem rannsóknarsetrið og ráðgjafafyrirtækið Z/Yen gefur út, sem gefur 100 fjármálamiðstöðvum einkunn fyrir þætti eins og innviði og mannauð. Á eftir New York og London koma Hong Kong og Singapúr í 3. og 4. sæti.

Allt frá því Bretar kusu að ganga út úr Evrópusambandinu fyrir rúmum tveimur árum síðan hafa heimsins stærstu fjármálafyrirtæki leitað leiða til að tryggja starfsstöðvum sínum í London áframhaldandi aðgang að innri markaði sambandsins, meðal annars með því að færa starfsfólk til annarra Evrópulanda.