Tölvuleikjarisinn japanski Nintendo hefur gefið út afkomuviðvörun vegna yfirstandandi reikningsárs og segir að hagnaður á árinu verði nær 17 milljörðum jena (andvirði um 19,4 milljarða króna) í stað 35 milljarða jena eins og fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Reikningsár Nintendo er frá 1. apríl til 31. mars.

Í frétt BBC segir að styrking japanska jensins skýri þessa lækkun að hluta, en vegna hennar hafi erlendar tekjur fyrirtækisins skroppið saman. Um þrír fjórðu tekna Nintendo koma til vegna sölu í öðrum löndum en Japan. Frá síðasta sumri hefur japanska jenið styrkst um 15% gagnvart Bandaríkjadal.

Fleira kemur þó til. Eftirspurn eftir leikjatölvunum 3DS og Wii U hefur ekki verið í samræmi við áætlanir.