*

þriðjudagur, 24. október 2017
Innlent 19. júní 2017 17:25

Ný verkáætlun um máltækni

Verkáætlun um máltækni fyrir íslensku árin 2018-2022 var kynnt í dag.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra kynnti í dag nýja verkáætlun um máltækni fyrir íslensku á árunum 2018-2022. Markmið hennar er að íslensku verði að finna í öllum tækjabúnaði og í hugbúnaði stærstu tæknifyrirtækja heims. 

Í frétt á vefsíðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir að til að tryggja framtíð íslenskunar í stafrænum heimi verði að bæta úr því að raddstýring alls kyns tækja og tóla skilji ekki íslensku. Auk þess þurfi að finna leiðir til að byggja upp vélar sem geti þýtt erlendan texta yfir á íslensku og öfugt. 

„Það er ríkur vilji stjórnvalda að hrinda í framkvæmd verkáætlun fyrir máltækni til næstu fimm ára og tryggja þannig að íslenskan verði fullgilt tungumál í stafrænum heimi. Ábyrgðin liggur þó ekki einvörðungu hjá stjórnvöldum heldur okkur öllum; fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum. Það hversu vel við hlúum að tungu okkar mun ráða úrslitum um stöðu hennar í framtíðinni.“ segir Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra.

Samkvæmt fréttinni verður þegar hafist handa við fjölmörg verkefni á þessu ári en meginþungi vinnunnar muni fara fram á árunum 2018-2022. 

Verkáætlunin byggir á tillögum stýrihóps um máltækni sem var skipaður í lok október árið 2016. Eru tillögurnar settar fram í skýrslunni Máltækni fyrir íslensku 2018-2022. 

Anna Björk Nikulásdóttir einn skýrsluhöfundar segir: „Í skýrslunni er gerð grein fyrir nauðsynlegum innviðum fyrir íslenska máltækni. Fjögur forgangsverkefni eru skilgreind og fjallað um hvað þurfi til svo hægt sé að vinna að nothæfum lausnum. Lagðar eru fram tillögur um hvernig hægt er að hvetja til nýsköpunar í máltækni og hvernig haga megi skipulagi fimm ára máltækniáætlunar“. Hún segir jafnframt að unnið verði að því að þróa talgreini, talgervil, þýðingarvél og málrýni sem erstafsetningar,- málfræði- og málfarsleiðréttingarforrit.