Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,39% í viðskiptum dagsins sem náum um 3,7 milljörðum. Stendur hún nú í 1.674,51 stig. Aðalvísitala Skuldabréfa hækkaði um 0,05% í 7,6 milljarða króna viðskiptum og er lokagengi hennar 1.323,66 stig.

Nýherji og N1 bæði í fréttum

Gengi bréfa Nýjerja hækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 7,34% í tæplega 73 milljón króna viðskiptum. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í dag hefur fyrirtækið hafið formlegt söluferli á dótturfyrirtæki sínu Tempo, en gengi bréfa Nýherja stendur nú í 30,70 krónum.

N1 hækkaði næstmest í kauphöllinni í dag, eða um 5,45%, en Viðskiptablaðið greindi frá því í dag að félagið hefði undirritað kaupsamning við Festi. Mun meiri viðskipti voru þó með bréf félagsins eða fyrir 239 milljónir króna og fæst nú hvert bréf félagsins á 116,00 krónur.

Þrjú félög lækkuðu

Mest viðskipti voru hins vegar með bréf Marel hf., eða fyrir 774 milljónir króna, en gengi bréfanna lækkaði um 1,01% og er nú komið í 344,50 krónur.

Mest lækkun var á bréfum Össurar eða 5,32% í óverulegum viðskiptum og fæst hvert bréf félagsins nú á 445,00 krónur. Fyrir utan þessi tvö lækkaði svo einungis Eimskipafélag Íslands í verði, eða um 0,39% í rétt um 10 milljón króna viðskiptum og eru bréfin nú verðlögð á 255,00 krónur.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma hækkaði um 0,6% í dag í 3,6 milljarða viðskiptum og skuldabréfavísitala Gamma hækkaði lítillega í dag í 5,6 milljarða viðskiptum.

Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,1% í 0,3 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði lítillega í 4,8 milljarða viðskiptum.