Fréttir berast ekki aðeins með fjölmiðlum, þær hafa frá aldaöðli borist manna á millum með ýmsum hætti, en síðustu ár hefur net- og farsímabyltingin breytt mörgu í þeim efnum. Þar deilir fólk fréttum til fylgjenda sinna, en ekki síður eru þó miðlarnir sjálfir að reyna að vekja athygli á þeim og mest eru það þó félagsmiðlarnir, sem ýta þeim að notendum, enda ókeypis og vinsælt meðal notenda.

Facebook hefur þar yfirburðastöðu. Það er langmest notaði félagsmiðillinn, en einnig sá sem er með hæst hlutfall notenda, sem nota hann til þess að fá fréttir. Jafnvel Twitter, sem er mikið notaður af hinum talandi stéttum, kemst þar ekki í hlutfallslegan hálfkvist.

Hitt er þó kannski síður merkilegt, hvað skilaboðaöppin eru að sækja í sig veðrið hvað fréttamiðlun áhrærir.