Grænlendingar heiðruðu Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, með gullorðu grænlenska þingsins, Nersornaat, á fimmtudaginn síðast liðinn. Þingforseti Grænlands, Lars-Emil Johansen, veitti Ólafi orðuna við hátíðlega athöfn á lokadegi Grænlandsráðstefnu Arctic Circle í Nuuk. Þetta kemur fram á vísir.is í gær.

Nersornaat-orðan úr gulli er æðsta viðurkenning sem Grænlendingar veita en hún er einnig veitt sem silfurorða. Meðal annarra sem hlotið hafa gullorðuna eru Jonathan Mozfeldt, Margrét Danadrottning, Friðrik krónprins, Poul Schlüter og Uffe Elleman-Jensen. Ólafi Ragnari er veitt orðan fyrir framlag sitt og forystu í málefnum Norðurslóða og fyrir samstarf við Grænland.

Í ávarpi sínu sagði Lars-Emil Johansen meðal annars að það hefði þurft víking til að takast á við þær áskoranir sem Ísland hefði gengið í gegnum á undanförnum árum. Sagði hann jafnframt að forseti Íslands hefði hlotið alþjóðlega viðurkenningu fyrir innlegg sitt þegar fjármálakreppan herjaði á Ísland.