Ólafur Stephensen hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann svarar fréttatilkynningu forstjóra Mjólkursamsölunnar, þar sem hann var sakaður um „vítaverð ummæli“ og að byggja málflutning sinn ekki á staðreyndum. Hann segir meðal annars að MS hafi aldrei greint Samkeppniseftirlitinu frá samningi við Kaupfélag Skagfirðinga.

Hér fyrir neðan má lesa tilkynningu Ólafs í heild sinni:

Að gefnu tilefni, fréttatilkynningu forstjóra Mjólkursamsölunnar, þar sem undirritaður er sakaður um „vítaverð ummæli“ og að byggja málflutning sinn ekki á staðreyndum, er rétt að rifja eftirfarandi upp.

Í fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins í desember síðastliðnum um samkeppnismálið, sem hér um ræðir, kom eftirfarandi fram. Leturbreytingar eru mínar:

„Fyrir áfrýjunarnefnd lagði MS í fyrsta sinn fram tiltekið gagn , samning við Kaupfélag Skagfirðinga frá 15. júlí 2008. Undir rannsókn málsins hafði MS aldrei vísað til eða greint Samkeppniseftirlitinu frá þessum samningi, þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hefði ítrekað óskað eftir skýringum og gögnum frá MS vegna umræddrar verðlagningar. Í úrskurði áfrýjunarnefndar segir um þetta:

„Þótt ekki hafi komið haldbærar skýringar á því hjá áfrýjanda hvers vegna bæði samningurinn hafi ekki verið lagður fram við meðferð málsins hjá Samkeppniseftirlitinu né grundvallargögn um efndir hans og uppgjör hjá áfrýjunarnefndinn i telur nefndin sér skylt á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar að koma málinu í þann farveg að upplýst sé um þessi atriði. Við munnlegan málflutning skýrðist málið ekki frekar að þessu leyti. Við svo búið telur áfrýjunarnefndin sér ekki unnt að taka efnislega afstöðu til málsins. Verður því ekki komist hjá því að ógilda hinn kærða úrskurð Samkeppniseftirlitsins og leggja fyrir eftirlitið að taka á ný afstöðu til málsins að undangenginni frekari rannsókn og að fengnum sjónarmiðum er varða þýðingu samningsins á milli áfrýjanda og KS frá 15. júlí 2008, uppgjöri á milli aðila hans og efndum á því tímabili sem meint brotastarfsemi stóð yfir.“

Samkeppniseftirlitið mun í samræmi við úrskurð áfrýjunarnefndar taka málið aftur til meðferðar. Jafnframt mun Samkeppniseftirlitið taka til rannsóknar hvaða ástæður liggja fyrir því að umræddur samningur var ekki lagður fyrir eftirlitið við rannsókn málsins, en viðurlög geta legið við því að halda upplýsingum frá eftirlitinu við rannsókn máls .“

Um þetta þarf ekki að hafa mikið fleiri orð. MS var beðin um gögn en afhenti ekki Samkeppniseftirlitinu gögn sem voru til. Við málflutning fyrir áfrýjunarnefnd komu ekki fram haldbærar skýringar á því að gögnunum hefði verið leynt fyrir stjórnvaldinu. Það er nú til rannsóknar hvers vegna gögnunum var leynt. Málflutningur forstjóra MS dæmir sig sjálfur í ljósi þessara staðreynda málsins.