Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) hefur valið Ölgerðina sem þekkingarfyrirtæki ársins en Össur, Já og LS Retail voru tilnefnd til verðlaunanna.

Í rökstuðningi dómnefndarinnar segir m.a. að Ölgerðin sé með einstaklega skýra stefnu og hafi náð eftirtektarverðum árangri í starfsemi sinni. Stefnan endurspegli mikinn metnað en um leið sé stigið varlega til jarðar og þess gætt að fyrirtækið færist ekki of mikið í fang.

„Ölgerðin er til fyrirmyndar í stjórnarháttum og fékk t.a.m. jafnlaunavottun VR á sl. ári og vinnur að því að jafna kynjahlutfall innan fyrirtækisins. Könnun á ánægju starfsmanna er framkvæmd fjórum sinnum á ári og hafa niðurstöður verið góðar. Hvað varðar samfélagslega ábyrgð þá er starfandi samfélagsstjóri innan fyrirtækisins sem sinnir málaflokknum. Á síðasta ári voru 100 verkefni tengd samfélagsábyrgð í gangi, m.a. á sviði umhverfismála og samfélagsmála,“ segir jafnframt í rökstuðningnum.